Um mig…

(Þrennt úr neðangreindri upptalningu er uppspuni. Sú er gestaþrautin)

Fyrsta bíóferðin sem ég man eftir og breytti lífi mínu var Dick Tracy.

Blóðfaðir minn var amerískur ríkisborgari af ítölskum ættum og barðist í Persaflóastríðinu.

Fyrsta bíómyndin sem ég fór einn á í kvikmyndahúsi var Space Jam.

Amma mín átti ógrynni af Shirley Temple og Carry On myndum. Elskaði þær!

Ég hef unnið við hönnun, skrif, þýðingar, blaðamennsku, klippingu, hljóðvinnslu, hlaðvarpsgerð, dagskrárgerð og skósölu.

Ég vann á þremur mismunandi vídeóleigum til fjölda ára.

Mest leigða spólan á mínu heimili árið 1997 var The First Wives Club.

Ég var anime nöttari á gelgjuárum og lifði á Neon Genesis Evangelion, Trigun, Ghost in the Shell, FLCL ofl.

Uppáhaldsmynd yngri bróður míns í áraraðir var The Master of Disguise (hjálp!)

Ég sá og ólst upp með Spaceballs áður en ég sá Star Wars.

Sama með Hot Shots og Top Gun.

Sumarið 2007 var ég með þremur fyrstu í biðröð Eymundssonar þegar tilefnið var tilhlökkun gagnvart doðranti um síðasta skólaár galdrastráks með fortíðardrauga.

Ég hef verið ‘draugapenni’ á þekktri íslenskri kvikmynd. 

Ég þýddi m.a. kvikmyndirnar Pig, Tully, Faces Places, Prospect, Vox Lux, Lady Macbeth, Blaze, Official Secrets, A Million Little Pieces, Charlie Says, Chick Lit, Snake Outta Compton, Wlldling, Time Freak, Archenemy og Miss Staken.

Ég hef labbað úr hléi á mynd eftir Baltasar.

Ég kláraði aldrei Game of Thrones

Sumarið 2020 var ég snaraður í ‘walk & talk’ óslitna tökusenu með Jóni Gnarr ofl í Eurogarðinum. Þurfti ekki einu sinni að segja orð!

Þá var ég einnig statisti í Fangavaktinni, Bjarnfreðarson, Stellu Blomkvist 2, Birtu og sjónvarpsþáttunum Marteini, svo dæmi séu nefnd.

Ég hef misst vinnu sökum þess að hafa skrifað dóm um íslenska kvikmynd, því leikstjórinn sjálfur fór fram á það. 

Einnig hef ég verið óbeint sakaður um að vera ‘eltihrellir’ af kvikmyndagerðarmanni sem líkaði ekki við dóm sem ég skrifaði.

Ég elskaði að horfa á eftirfarandi (drasl)þætti:

A Shot at Love with Tila Tequila
Keeping up with the Kardashians
Love is Blind, 1, 2, Brazil og Japan
Dating Around
First Dates
Back with the Ex
The Ultimatum
Ice Loves Coco

Villi Neto fékk DVD diska í láni og skilaði þeim aldrei. Fokkerinn….

Aðeins einu sinni hef ég sofnað í bíó.

Ég hef aldrei farið oftar en 8x á sömu mynd í bíó.

Metið mitt er fjórar myndir á sama deginum; þetta var árið 2005 og ég sá Kinsey, Hotel Rwanda, Garden State og I Heart Huckabees í röð.

Ég hef hitt og rætt við ýmsa stórfræga en aldrei var ég meira starstruck en þegar ég hitti Hemma Gunn sem krakki.

Sturluð staðreynd; ég var fyrsta barnið (af möööörgum) sem heimsótti þáttinn Á tali hjá Hemma Gunn. 

Systir mín eldri er eigandi verslunarinnar Kjólar og konfekt á Laugaveginum.

Hin sama umrædda systir skaut upp kollinum í Quarishi myndbandinu fyrir Stun Gun.

Ég sá um brandarahornið í Séð & heyrt um nokkurt skeið.

Síðasta bíómynd sem ég sá með föður mínum var The Wicker Man endurgerðin.

Uppáhalds bíóið mitt er Laugarásbíó, en Egilshöll haltrar fast á eftir.

Ég raunverulega hef dýrkað Spice Girls síðan í æsku.

Ég fór sex sinnum í bíó á Mamma Mia: Here We Go Again.

Aldrei hef ég farið á sing-along sýningu.

Árið 2018 tók ég viðtal við geimfara.